Þemadagar og opið hús

Í dag hefjast þemadagar hjá Tónsölum sem lýkur á föstudaginn með opnu húsi frá 16:00-18:00 þar sem gestum og gangandi er boðið að heimsækja skólann, spjalla við kennara og prufa ýmis hljóðfæri.

Dagskrá þemadaga er eftirfarandi:

Mánudagurinn 11. maí klukkan 15:00-18:00
Tónlist og hreyfing
7-10 ára nemendur (2005-2008)

Lögð er áhersla á hlustun, hreyfingu, tónsköpun, gleði og gaman. Byrjað er á því að hrista hópinn saman með nokkrum nafnaleikjum. Því næst er skipt upp í minni hópa og farið í stöðvavinnu þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi hvort sem það er dans, tónlistabingó, spil, söngvaleikir eða kroppaklapp. Að lokum kemur hópurinn saman og lokar námskeiðinu með stoppdanskeppni og slökun.

Þriðjudagur 12. maí klukkan 15:00-18:00
Tölvur og tæki í tónlist
13-15 ára nemendur (2000-2002)
(Áður nefnt „Græjur, upptökur og spjaldtölvur“)

Nemendur fá kynningu á forritunum Garageband, Protools, Audacity og helstu verkfærum við tónlistarvinnslu á spjaldtölvum og símum. Einnig verður farið í míkrafóntækni í stúdíóvinnslu og svokallað „autotuning“ skoðað. Ef tími gefst til þá verður tekið upp örlag og fá nemendur tækifæri til að kynnast upptökuferlinu af eigin raun.

Miðvikudagur 13. maí klukkan 15:00-18:00
Skapandi tónsmiðja – yngri nemendur
11-12 ára nemendur (2003-2004)

Nemendur hittast, prófa að spila saman og búa til tónlist. Nemendur vinna saman undir handleiðslu kennara og prófa ólíkar leiðir til að móta og skapa tónlist. Unnið verður með hryn, styrkleikabreytingar, laglínur og undirleik. Allir nemendur fá verkefni við hæfi og námskeiðið hentar byrjendum jafnt sem lengra komnum nemendum.

Miðvikudagur 13. maí klukkan 18:00-21:00
Skapandi tónsmiðja – eldri nemendur
16-24 ára nemendur (1991-1999)

Nemendur vinna saman að því að semja og taka upp lag með aðstoð kennara. Laginu verða settar ákveðnar afmarkanir til að auðvelda nemendum að komast af stað í lagasmíðinni. Allt er tekið upp í hlutum og notast við click track. Nemendum er skipt upp í hentugar hópastærðir og allir vinna saman við að „pródúsera“ lagið.

Föstudagur 15. maí klukkan 16:00-18:00
Opið hús

Kennarar taka á móti gestum, svara spurningum varðandi tónlistarnám og aðstoða gesti við að prufa hljóðfæri.