Tónsalir

Tónsalir er einkarekinn rytmískur tónlistarskóli sem stofnaður var árið 2005. Í skólanum er kennt eftir rytmískri námskrá, en rytmísk tónlist er safnheiti yfir djass, rokk, blús og aðrar tónlistartegundir sem teljast ekki til klassískrar tónlistar.

Í skólanum er boðið upp á einstaklingsbundið nám á gítar, píanó, rafbassa, trommur og söng sem rúmar mismunandi óskir og áherslur nemenda hverju sinni. Þar að auki eru kennd bókleg fög á borð við tónfræði, tónheyrn og hljómfræði.

Lögð er áhersla á listræna tónlistarfærni þar sem nemendur leggja ekki eingöngu áherslu á nótnalestur heldur einnig að spinna, útsetja, leika eftir eyra, koma fram og jafnvel semja. Með því öðlast nemandinn betri skilning á tónlist, það eflir frumkvæði hans, sköpunargáfu og sjálfstraust nemandans auk þess sem hann fær að njóta sín. Hlutverk tónlistarkennslu er ekki einungis bundið við að kenna nemendum tónlistarfærni sem þeir geta notað í nútíðinni því einnig þarf að kenna nemendum hvernig þeir geta haldið áfram að þroska tónlistarhæfileika sína.

Markmið skólans er að það sé eftirsóknarvert fyrir nemendur að stunda nám í honum og að skólinn verði einnig eftirsóttur vinnustaður fyrir kennara. Skólinn leggur áherslu á að tónlistarnámið eigi að vera fjölbreytt og skemmtilegt.

Sýn Tónsala

  • Tónsalir veita nemendum og foreldrum framúrskarandi þjónustu.
  • Í Tónsölum er lögð áhersla á jákvætt og skapandi starfsumhverfi þar sem nemendur fá tækifæri til að styrkja sjálfa sig, styrkja sjálfsmynd sína og taka sífellt meiri ábyrgð á sjálfum sér og námi sínu eftir því sem aldur og þroski þeirra gefur tilefni til.
  • Í Tónsölum mótast skólastarfið af nútímalegum vinnubrögðum og eru gefandi og skapandi. Stundaðir eru fjölbreyttir kennsluhættir sem koma til móts við þarfir nemenda með áherslu á styrkleika þeirra.
  • Í Tónsölum er viðhaft gagnkvæmt samstarf og upplýsingamiðlun heimilis og skóla sem styrkir báða aðila við að búa nemendum betri námsskilyrði.
  • Tónlistarskólinn Tónsalir stefnir að því að leiðandi í nýjungum í tónlistarkennslu á Íslandi.

Hafið samband til að fá frekari upplýsingar