Tónfræði

Tónfræði

Kennsla: Hafdís Pálsdóttir, Þorvaldur Kári Ingveldarson og Kristófer Hlífar Gíslason.

Í aðalnámskrá eru fleirtöluorðin tónfræði og tónfræðagreinar notuð sem samheiti yfir ýmsar greinar, svo sem tónfræði, hljómfræði, tónheyrn, tónlistarsögu, formfræði og kontrapunkt. Tölvunám tengt tónlist telst einnig til tónfræðanáms, hvort heldur tölvan er notuð til tónsköpunar, nótnaritunar, sem tóngjafi eða upptökutæki. Með hjálp tölvu gefast nemendum sífellt meiri möguleikar í þekkingaröflun, þjálfun, tónsköpun og tónlistariðkun.

Tónfræðanám hefur að markmiði að auka tónnæmi, þekkingu og skilning nemenda á innri gerð tónlistar sem og að þeir öðlist færni til að fást við fjölbreytileg viðfangsefni í tónlist. Einnig á námið að stuðla að því að nemendur þroski með sér sjálfstæð viðhorf til tónlistar.

Við lok grunnnáms skulu nemendur þreyta grunnpróf, annars vegar í hljóðfæraleik og hins vegar í tónfræðagreinum. Grunnpróf í tónfræðagreinum er þrískipt, þ.e. munnlegt próf, skriflegt próf og valverkefni. Skal öllum hlutum prófsins lokið á sama skólaári.

Fyrstu árin í námi fer tónfræðikennslan fram í hljóðfæratímum á meðan nemandi lærir grunnhugtök tónfræðinnar. Þegar nemandi hefur náð þeim markmiðum sem sett eru fram í skólanámskrá fer hann í hóptíma í tónfræði sem eru kenndir einu sinni í viku í 60 mínútur í senn.